Aðventa

359

Aðventan er yfirleitt viðburðarríkur tími. Mikið um tónlistarviðburði, jólasamverur og oft einskonar uppskerumót eða viðburði tengt íþróttastarfi barna. Þetta er upplyfting í skammdeginu en nú verðum við að finna okkur annað til dægrastyttingar. Að sjálfsögðu er margt hægt að gera skemmtilegt en sannarlega kemur ekkert í stað þeirrar samveru sem fylgir öllum þessum viðburðum.

Orðið aðventa er úr latínu og merkir ,,koman” eða ,,sá sem kemur”. Nú hillir undir að bólusetning hefjist við pestinni sem herjað hefur á heimsbyggðina. Í framhaldinu fáum við það frelsi sem við vorum vön en vitum nú af beiskri reynslu að er ekki sjálfsagt. Það er þess virði að gæta að öllum sóttvörnum á aðventunni, þar til bóluefnið og frelsið kemur.

Mikilvægasta verkefni sveitarfélagsins

Í desember lýkur gerð fjárhagsáætlunar fyrir sveitarfélagið. Þetta er mikilvægasta verkefni hverrar sveitarstjórnar því þarna er allur rammi um starfsemi sveitarfélagsins skilgreindur næsta árið. Ef agi er við stjórn sveitarfélaga að þá fylgja menn þessari stefnumörkun eftir þar til ný fjárhagsáætlun liggur fyrir. Samhliða þessu er gerð áætlun til 3ja ára sem ekki er eins ítarleg en samt mikilvæg til að sjá lengra fram í tímann um hvernig starfsemi, framkvæmdir og fjárhagur sveitarfélagsins kemur til með að þróast.

Fjárhagsstaða

Núverandi bæjarstjórn Hornafjarðar hefur haldið vel á spöðunum. Fjárhagslegur styrkur sveitarfélagsins er augljós þegar rýnt er í ársreikning fyrir 2019. Afkoma fyrir fjármagnsliði var upp á 700 miljónir og skuldastaðan góð. Það er því borð fyrir báru nú í erfiðu árferði. Sveitarfélagið hefur því góð spil á hendi ef þörf er á að örva atvinnulíf eða ráðast í framkvæmdir.

Hjalti Þór Vignisson