Drög að hættumati Veðurstofunnar fyrir svæðið neðan Svínafellsjökuls vegna breghlaups úr Svínafellsheiði var kynnt fyrir íbúum á áhrifasvæði hættunnar, ferðaþjónustuaðilum á svæðinu og á opnum íbúafundi sl. miðvikudag. Allir þrír fundirnir fóru fram í gegnum fjarfundarbúnað og var íbúafundinum einnig streymt á YouTube. En slóðina má nálgast á Facebook síðu sveitarfélagsins.
Niðurstöður hættumatsins gefa til kynna að í dag sé íbúum og atvinnureksri á svæðinu búin óveruleg hætta af berghlaupi og afleiðingum þess fari hlíðin af stað en að til lengri tíma með áframhaldandi hopun jökulsins og stækkun jökullóna fyrir framan hann sé hætta af flóðum í slíkum hamförum. Taka þarf tillit til þess í framtíðaráformum skipulags á svæðinu og skoða þarf hvort mögulegt sé að fara í einhverjar mótvægisaðgerðir.
Loftslagsbreytingar
Loftslagsbreytingar með hlýnun jarðar eru raunveruleg ógn fyrir íbúa sveitarfélagsins og ekki síst í Öræfum. Þetta eru breytingar sem gerast á löngum tíma en hafa mikil áhrif í stóra samhenginu. Hopun jökla, spennubreytingar í bergi og margir samverkandi þættir valda því að hlíðin er óstöðug. Jarðvísindamenn frá Háskóla Íslands auk teymis vísindamanna frá Veðurstofunni hafa komið fyrir margskonar mælitækjum í hlíðinni og þar um kring og er hún vöktuð allan sólarhringinn. Fyrstu mælingar eru frá árinu 2016 en síðustu tvö ár hefur verið lítil hreyfing á berginu.
Hvað getum ég og þú gert?
Loftslagsbreytingar eru málefni sem snertir okkur öll og þar getum við öll haft árif. Lítil skref hvers og eins telja s.s.
- Að draga úr neyslu.
- Endurnýta, taka til í skápunum og nota aftur það sem leynist í þar stað þess að kaupa nýtt.
- Ef ég get ekki notað það að koma því áfram til annarra t.d. til Hirðingjanna sem selja hlutinn og nýta ágóðann til samfélagslegra verkefna og stuðnings.
- Endurvinna það sem ekki er hægt að endurnota.
Hvað getur sveitarfélagið gert?
Sveitarfélagið vinnur samkvæmt umhverfisstefnu og þar sem loftslagsmál skipa sinn sess og hefur gert allt frá nóvember 2013 þegar við hófum samstarf við Landvernd og Samband íslenskra sveitarfélaga í loftslagsverkefni sem hafði það að markmiði að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Umhverfisfulltrúi tók til starfa hjá sveitarfélaginu fyrir um ári síðan og hefur fylgt málaflokknum eftir í ýmsum verkefnum.
En það er nú þannig að ef hvert og eitt okkar skilar sínu þá getum við gert stóra hluti saman. Tökum saman höndum öll sem eitt og leggjum okkar af mörkum til að hægja á þeirri þróun sem á sér stað í dag.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og almannavarnarnefndar.