Íslenska ferðasumarið 2020

433

Á flestum heimilum landsins er hin daglega rútína nú farin í gang eftir sumarfrí. Sumarfrí sem var líklega aðeins öðruvísi en vanalega, sökum Covid-19. Ótal margir nýttu tækifærið og ferðuðust innanlands, fóru loksins á staði hér heima á Íslandi sem hafa verið lengi á bið, því heita sólin í Evrópu lokkaði meira. Gististaðir, afþreyingarfyrirtæki og veitingastaðir kepptust við að reiða fram glæsileg tilboð í þeirri von að fá fleiri gesti, fleiri íslenska gesti. Í ljósi aðstæðna voru mörg tilboðanna lygilega hagstæð, þar að auki var ferðagjöfin í boði á ótal stöðum, sem kom sér vel. Íslenski ferðamaðurinn lét ekki á sér standa og nýttu margir sér þessi frábæru tilboð. Prófuðu ýmsa afþreyingu sem annars hefði ekki verið prófuð, snæddu á dýrindis veitingastöðum vítt og breytt um landið, sem margir vissu ekki að væru til og sváfu á flottum gististöðum sem kepptust um að bjóða hagstæðasta verðið.

Dýrmæt reynsla

Þetta sérstaka íslenska ferðasumar er dýrmætt á margan hátt. Ekki eingöngu fyrir þær góðu minningar sem bætast í reynslubankann hjá ferðamanninum heldur vegna ótal margra Íslendinga sem eru margs vísari um landið sitt og langar að upplifa meira á komandi árum. Það er heill hellingur í boði um allt land, en við erum bara að átta okkur á því núna sem er frábært og tímabært. Samfélagsmiðlarnir spiluðu þar stórt hlutverk, t.d. hópur á facebook sem heitir „Landið mitt Ísland.“ Þar setti fólk inn meðmæli eða skellti fram spurningum eins og  hvar best væri að gista á Höfn, en borða og hvað hægt væri að finna sér að gera o.s.frv. Frábær vettvangur til þess að deila upplýsingum og afla þeirra.

Höldum áfram

Þó svo að sumarið 2020 hafi ekki skilað fyrirtækjunum í ferðaþjónustu hér á Höfn nema broti af þeirri innkomu sem vanalega er á sumrin þá er ég viss um að gestirnir sem hingað komu hafi haldið ferðalaginu áfram sáttir við það sem staðurinn hefur upp á að bjóða, og langar að skoða meira næst. Fyrir utan augljósa og einstaka náttúrufegurð í sveitarfélaginu þá er fjölbreytnin og gæðin í gistingu, mat og afþreyingu, framúrskarandi. Líklegt er að þeir íslensku ferðamenn sem hingað komu í sumar, gistu á svæðinu, nutu matar og drykkjar á veitingastöðum og fóru í ferðir afþreyingafyrirtækja, hafa talað um upplifun sína við vini og vandamenn og munu halda því áfram á komandi misserum.

Það er því mikilvægt að halda áfram að viðhalda þeirri bylgju sem sett var af stað í að auglýsa svæðið miðað við þessar breyttu aðstæður sem skapast hafa. Leggjum því ekki árar í bát, höldum ótrauð áfram þeirri vinnu sem hrundið var af stað á vordögum og sýnum hvað svæðið hefur upp á að bjóða. Það er einfaldlega þannig að besta auglýsingin fyrir fyrirtækin og Sveitarfélagið felst í sáttum ferðamanni sem lætur boðin berast og þess vegna er mikilvægt að hingað sé gott að koma jafnt sumar sem vetur.

Íris Heiður Jóhannsdóttir