Vettvangur dagsins

308

Bæjarstjórn Hornafjarðar kom saman í gær fimmtudaginn 20. ágúst eftir sumarfrí. Fundurinn var að vanda sendur út í beinni útsendingu á YouTube í gegnum Facebook síðu sveitarfélgsins. Sjá hér https://www.youtube.com/watch?v=QtJbonM1Ouw&feature=youtu.be&fbclid=IwAR2IdhLtHOUSvos7xi_8ZYVCF0GFyzqk_NMel4ABMzhLHAp1K7we5Owk3x8

Fundur með ráðherrum

S.l. þriðjudag sat undirrituð fund með ríkisstjórninni og fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi á Hótel Læk í Rangárþingi ytra. Þar var farið vel yfir áskoranir sveitarfélaganna á þessum skrítnu tímum. Áhrif Covid-19 á atvinnulíf á svæðinu og tekjur sveitarfélaga. Einnig þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir við gerð fjárhagsáætlanna fyrir næsta ár. Hvernig við getum haldið uppi framkvæmdastigi og þjónustu þrátt fyrir að tekjur sveitarfélaganna dragist saman. Farið var yfir hvernig fundarmenn telja að viðspyrnuaðgerðir ríkisins hafi nýtst til þessa og hvar þarf að bæta í. 

Þar gafst einnig tækifæri til að minna á þau verkefni sem þarf að leysa á milli ríkis og sveitarfélags s.s. hvernig rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila verður háttað til framtíðar og aukið fjarmagn til reksturs. Hvar bæta þarf í opinbera þjónustu og mikilvægi þess að dreifa opinberum störfum meira út á land með fjarvinnslu sem hefur sýnt sig að er vel framkvæmanleg.

Fram kom að ríkið veitir sex sveitarfélögum stuðning vegna hruns í ferðaþjónustu í kjölfar Covid-19. Sveitarfélagið Hornafjörður er eitt þessara sveitarfélaga og fær 18 milljónir í sinn hlut. Nú verður unnið úr því hvernig þessir fjármunir nýtast best.

Nýjar reglur

Í vikunni tóku gildi nýjar reglur um sóttvarnir hjá öllum þeim sem koma til landsins. Íþyngjandi reglur fyrir ferðamenn en sjálfsögð varúðarráðstöfun fyrir þá sem eru að koma „heim“ eða eru að koma til langrar dvalar á landinu. 

Sitt sýnist hverjum um þessar aðgerðir. Það er erfitt og jafnvel ill mögulegt að finna meðalveginn sem ver okkur gegn heimsfaraldrinum og heldur efnahagslífinu gangandi.

Fjarlægðarreglan hefur einnig verið mikið í umfjöllun í vikunni. Túlkun, viðurlög og virðing gagnvart náunganum. Hvað má hvað má ekki? Við erum örugglega flest að velta því fyrir okkur og reyna okkar besta.

Skólar hefjast

Skólarnir eru að byrja. Þar er aðlögun að reglunni niður í 1 meter sem auðveldar mikið skipulagningu skólastarfs. Það verður næstum því „eðlilegt“ hjá litlum skólum eins og í okkar samfélagi sem er frábært!

Það eru krefjandi tímar framundan fyrir okkur öll. Stöndum saman í því að vernda okkur íbúa og samfélagið okkar. Viðhalda virkni og þátttöku í verkefnum samfélagsins eftir því sem við best getum. 

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs