Samstarf um barnvænt sveitarfélag

365

Það var stór stund í Svavarssafni í morgun þegar félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason, Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri og Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi skrifuðu undir samkomulag um samstarf við framkvæmd verkefnisins barnvæn sveitarfélög. Verkefnið felst í því að sveitarfélagið innleiði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem UNICEF hefur þróað. Verkefnið er stutt með reglulegum og vel tilgreindum stuðningi félags- og barnamálaráðuneytisins og UNICEF með fræðslu og ráðgjöf.

Með undirskriftinni er staðfest samþykki sveitarfélagsins, að nota Barnasáttmálann sem viðmið og leiðarstef í starfsemi þess. Verkefnið hefst nú á tveggja ára innleiðingarferli. Að þeim tíma loknum getur sveitarfélagið, að uppfylltum forsendum verkefnisins, hlotið viðurkenningu frá UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.

Í tilefni undirskriftarinnar skelltu ráðherra, bæjarstjóri og framkvæmdastjóri UNICEF sér á hoppubelginn góða með börnunum og nutu gleði dagsins í góða veðrinu.

Regnbogastígurinn

Regnbogastígurinn var svo málaður í kjölfarið. Margir lögðu þar hönd á plóg við að fegra umhverfið og fagna í leiðinni fjölbreytileikanum í samfélagi okkar í Sveitarfélaginu Hornafirði. 

Það var ánægjulegt að félags- og barnamálaráðherra tók þátt í því verkefni með okkur. 

Kvennréttindadagurinn

Að lokum langar mig að óska okkur öllum til hamingju með daginn! 19. júní, Kvennréttindadagurinn, er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi þar sem við höldum uppá kosningarétt kvenna. Hann fengu konur þann 19. júní 1915, 40 ára og eldri.

Njótum dagsins, þökkum þeim sem hafa gengið hafa veginn á undan okkur og höldum baráttu fyrir réttindum einstaklingsins áfram!

Ásgerður K. Gylfadóttir