Áfangi

348

Okkar góðu nágrannar í Skaftárhreppi fögnuðu stórum áfanga í vikunni þegar skóflustunga var tekin að nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs við Kirkjubæjarklaustur.  Þetta er gott skref fyrir þjóðgarðinn og íbúa í Skaftárhreppi.  Meginstöðvar þjóðgarðsins áttu að vera í byggð og mynda einskonar hlið í þjóðgarðinn.  Tvær þeirra eru í Sveitarfélaginu Hornafirði.  Önnur í hjarta Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli og hin á Höfn.  Aðrar slíkar stöðvar eru nú þegar á Skriðuklaustri og Ásbyrgi.  Á milli átti að byggja upp starfstöðvar nærri útivistarsvæðum sem leggja áttu grunn að aukinni útivist og atvinnusköpun.

Jökulsárlón

Fyrir nokkrum árum var mörkuð sú stefna að við Jökulsárlón ætti ekki að byggja upp aðstöðu til næturdvalar.  Helga ætti svæðið daggestum.  Sjónarmið voru uppi um að þarna væri kjörið tækifæri til að byggja upp lúxusgistingu en því var hafnað þá.   Allir ættu að geta notið þess að eyða dagsparti við lónið á sínum eigin vegum, til að njóta þjónustu fyrirtækja sem ýmist gerðu út á lónið sjálft, náttúruperlur í nágrenni eða þiggja veitingar sem þar væru í boði. 

Það er enn stórt álitamál hvernig þjónustu eigi að byggja upp við lónið og á kostnað hvers, ríkisins eða þeirra sem ætla að þjónusta gesti þar.  Sennilega þarf blöndu af hvoru tveggja.  Mikilvægast er að sem flestir komist að og tækifæri sé fyrir einstaklinga að bjóða fram þjónustu sem gestirnir leitast eftir í formi veitinga og afþreyingar.  Það þarf ekki stóra þjónustumiðstöð þar sem einn aðili heldur í taumana, hvort sem það er einkafyrirtæki eða ríkið.  Frekar ætti að stefna að uppbyggingu í anda mathalla sem sprottið hafa upp víða um heiminn, með mörgun litlum veitingastöðum innan sömu veggja og aðstöðu utandyra þar sem mörg afþreyingarfyrirtæki geta þrifist

Höfn

Gamlabúð hefur verið meginstarfstöð Vatnajökulsþjóðgarðs um nokkurt skeið og þjónað því hlutverki vel sem og öðrum sem það merka mannvirki hefur gegnt í gegnum tíðina.  Það má draga fram að rétt yfir þúsund gestir sóttu hana heim áður en hún var flutt á sinn gamla stað fyrir um áratug og var á leiðinni að vera ein og yfirgefinn.  Nú eru gestirnir taldir í tugum þúsunda. Til lengdar á Gamlabúð samt að þjóna öðru hlutverki og Vatnajökulsþjóðgarður að byggja upp gestatofu álíka þeirri sem nú ris á Kirkjubæjarklaustri. 

Uppbygging innviða

Þrátt fyrir að stórar gestastofur í byggð geti þjónað þjóðgarðinum, gestum hans og byggðinni þar sem húsið rís þá er mikilvægast að byggja upp innviði fyrir útivist og atvinnusköpun við þær náttúruperlur sem þjóðgarðurinn sjálfur gæti aldrei þrifist án.  Bátur leggst ekki að landi með afla án hafna og eins verður ferðaþjónusta án grunngerðar ekki að veruleika.  Göngustígar, brýr, fræðsluskilti, sómasamlegar götur fyrir þá faraskjóta sem fólk velur ásamt lögum og reglum eru þær bryggjur sem þarf að byggja til að efla ferðaþjónustu við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Hjalti Þór Vignisson