Til hamingju sjómenn

336

Sjávarútvegur hefur verið undirstöðu atvinnugrein okkar Íslendinga í aldaraðir og ein helsta ástæða að efnahagur landsins sé sambærilegur við það sem best gerist á jörðinni.

Á tímum sem þessum heldur fólk sig heima, ferðast lítið sem ekkert og sækir ekki veitingastaði.  Þegar nær allir veitingastaðir í veröldinni hafa verið lokaðir nú á annan mánuð þá er mikilvægt fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að hafa góð viðskiptatengsl við verslunarkeðjur erlendis.  Faraldurinn hefur undirstrikað hversu mikilvæg er að hafa eggin ekki öll í sömu körfunni.  Fyrir lönd eins og Ísland er ekki gott að reiða sig á eina atvinnugrein umfram aðra og fyrirtæki sem starfa á erlendum mörkuðum, líkt og flest sjávarútvegsfyrirtæki gera, ættu að herja bæði á verslunarkeðjur og veitingahús. 

Sjómanndagurinn verður ekki með hefðbundnu sniði þetta árið.  Kappróður, sigling út fyrir Ós og skemmtun í íþróttahúsinu hafa verið fastir liðir í tilverunni en núna hittist fólk í smærri hópum og gerir sér glaðan dag. Í tvö ár hefur ekki verið gefinn út loðnukvóti og humarkvóti hefur dregist mikið saman.  Á móti er þorskstofninn sterkur.  Kjör sjómanna hafa því oft verið betri en engin stétt er sennilega jafn vön sveiflum í kjörum sínum og sjómenn.

Hornafjörður er útgerðarbær og í gegnum faraldurinn var ekki dregið úr sókn né vinnslu.  Búið er að fjárfesta á undanförnum árum og því hægt að uppfylla kröfur á kröfuhörðum mörkuðum úti um allan heim.  Þrátt fyrir tæknivæðingu þá er ekkert sem kemur í stað fyrir þrautsegju og útsjónarsemi þeirra sem standa í eldlínunni. 

Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.