Forvarnir eru langtímaverkefni og tengist heilsu okkar á margan hátt, bæði líkamlegri og andlegri heilsu. Stundum er hugtakinu fleygt fram í tengslum við neyslu unglinga og þar er mikil þörf á fræðslu og uppbyggilegu starfi til að hvetja ungt fólk áfram á réttri braut. Forvarnir snerta samt okkur öll og þegar komið er fram á fullorðins ár er mikilvægt að brýna fyrir öllum reglubundna hreyfingu, gott mataræði og fleira til að heilsa sé góð.
Hlutverk sveitarfélaga
Sveitarfélögin eru til þess að þjóna íbúum í sínu héraði. Markmið með því að halda úti sveitarfélögum er einmitt að halda þjónustunni sem næst einstaklingum og að allir geti haft mótandi áhrif á hvernig stefnan er á hverjum tíma. Sveitarfélög eru þess vegna mjög vel í stakk búinn til að vinna markvisst að fræðslu og forvörnum til bættrar lýðheilsu. Hornafjörður vinnur á margvíslegum vígstöðum að þessu, í skólum, á vettvangi heilbrigðisstofnunnar og í gegnum samning sinn við íþróttafélög.
Verum á tánum
Það er hægt að gera betur og þar sem samfélagið er í örri þróun þarf sífellt að vera þróa nýjar leiðir og aðferðir til að koma skilaboðum áleiðs. Gott væri að ná að tvinna betur starf skóla, íþróttafélaga og heilbrigðisstofnunnar í þessa veru. Skoða mætti hvort ekki ætti að fela starfsmanni sem til dæmis gæti verið undir hatti grunnskólans að vinna með markvissari hætti að þessum málum. Það hefur sýnt sig að sterk tengsl eru milli heilbrigðis lífernis og árangurs í námi barna.
Á Hornafirði er allt til staðar til að ná árangri í þessum efnum en við þurfum alltaf að vera á tánum, ekki bara þegar halla fer undan fæti heldur einmitt að viðhalda árangri þegar hann næst.
Kristján S. Guðnason
bæjarfulltrúi