Hve glöð er vor æska!

382

Til hamingju með áfangann, stúdentar og aðrir sem útskrifast í dag úr námi frá Framhaldsskólanum í Austurskaftafellssýslu!

Skólalok eru alltaf tímamót og ekki síst þegar ákveðnum áfanga er náð. Vinna vetursins gerð upp. Vonandi er uppskera eininga og áfanga góð hjá nemendum þetta vorið en segja má að vorönnin hafi verið eftirminnileg og án efa verið mörgum erfið.

Heimsfaraldur kórónaveiru setti skólastarf úr skorðum á öllum skólastigum en bæði nemendur og kennarar stóðu sig vel í þessum einkennilegu aðstæðum og gerðu það besta úr fordæmalausum aðstæðum. Eiga þau hrós skilið fyrir það.

Atvinna fyrir ungmenni

Nemendurnir sem nú útskrifast eða fara í sumarfrí frá FAS, öðrum framhaldsskólum og háskólum eru að upplifa fleiri breytingar. Mörg hver hafa þau átt vísa vinnu við hin ýmsu störf yfir sumartímann og ekki síst í ferðaþjónustu. Hinar ýmsu greinar ferðaþjónustunnar hafa tekið þeim höndum tveim og krakkarnir hafa getað aflað sér tekna til að undirbúa næsta vetur og gera sér glaðan dag yfir sumarið.

Nú er staðan önnur. Atvinnuleysi á þeim skala sem við höfum ekki upplifað hér áður og óvissa um hve lengi ástandið varir. Námsmenn eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og þyngist róðurinn hjá nemendum, foreldrum og forráðamönnum ef ekki koma inn tekjur yfir sumarið.

Aðrar atvinnugreinar koma nú sterkar inn þar sem hægt er að útvega krökkunum vinnu. Sveitarfélagið, fiskvinnsla, iðnaðargreinarnar, sjoppur, Nettó o.fl.

Átak hjá sveitarfélaginu

Sveitarfélagið hefur ákveðið að bæta við þann hóp sem hefur að jafnaði verið í sumarvinnu, vinnuhópar verða á Höfn og í Öræfum. Auk hins hefðbundna Vinnuskóla og bæjarvinnu hafa forstöðumenn sviða sveitarfélagsins tekið saman verkefni af ýmsum toga sem nemendur á framhalds- og háskólastigi munu sinna. Auk þess hafa Nýheimar og Rannsóknasetur Háskóla Íslands einnig auglýst eftir nemendum til starfa í sumar.

Hluti þessara starfa eru styrkt með fjárframlagi frá Vinnumálastofnun og einnig hefur verið sótt um styrki til Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Markmiðið er að allir nemendur fái verkefni í sumar og tekjur sem geta skipt sköpum sérstaklega fyrir eldri námsmenn.

Ásgerður K. Gylfadóttir
formaður bæjarráðs