Nú mega börn æfa íþróttir eins og áður var. Þrátt fyrir hömlur síðustu vikur mega Íslendingar teljast heppnir samanborið við margar aðrar þjóðir sem búið hafa við strangt útgöngubann. Þannig hafa börn víða ekki mátt leika sér úti, hvað þá að safnast saman og stunda íþróttir.
Mótum og leikjum í íþróttum sem keppt er yfir vetrarmánuðina hefur að mestu leiti verið blásið af. KSÍ birti nýlega leikjaniðurröðun fyrir leiki yngri- og meistaraflokka. Leikirnir í sumar verða fleiri en 100 í öllum flokkum og þá eru ekki meðtalinn mót eins og Reycup, mótin í Eyjum og á Akureyri. Leikið verður út október til að klára öll mót. Sindramenn verða því á ferð og flugi á næstu mánuðum.
Samningur við Sindra
Sveitarfélagið styður við íþróttalíf á virkan hátt. Gengið var frá nýjum samningi á síðasta ári. Sveitarfélagið styður sérstaklega við rekstur skrifstofu Sindra, en veitir bæði peningum í yngri flokka félagsins sérstaklega, sem og afreksstarf. Þá fær Sindri framlög til að halda úti íþrótta- og tómstundaskóla og standa að 17. júní hátíð á Höfn.
Meginmarkmið samningsins er:
- að bjóða upp á fjölbreytt starf þannig að sem flestir fái tækifæri til þátttöku í samræmi við áhuga, vilja og getu, óháð efnahag, búsetu, kyni, kynþætti eða að öðru leiti.
- að auka gæði og fjölga þátttakendum í hreyfingu og almennri heilsueflingu.
- að vinna markvisst að jafnrétti m.a. með því að tryggja iðkendum af öllum kynjum jöfn tækifæri til að stunda íþróttir
- að ná árangri í forvörnum varðandi notkun tóbaks og vímuefna, einelti og brottfalli úr íþróttum.
Auk þess veitir sveitarfélagið stuðning í formi íþrótta- og tómstundastyrks. Upphæðin er 50.000 á hvert barn sem nýta fyrir íþrótta-, lista- og/eða aðra
tómstundastarfsemi sem samþykkt hefur verið af sveitarfélaginu.
Góð aðstaða sem má bæta
Almennt má segja að aðstaðan til iðkunar sé góð. Íþróttavellir, bæði keppnis- og æfingavellir fyrir fótbolta og frjálsar íþróttir eru til fyrirmyndar. Þá er Báran frábært æfingahúsnæði sem nýta má í leiki fyrir yngstu flokkana. Sama má segja um sundlaugina sem er afar góð fyrir almenning sem og íþróttafólk. íþróttahúsið er hins vegar komið til ára sinna og getur ekki til lengri tíma þjónað þeim krafti sem er í starfsemi körfuboltans og blakið er einnig vaxandi.
Nýtt íþróttahús hýtur því að vera næsta stóra framkvæmd á vegum sveitarfélagsins.
Hjalti Þór Vignisson