Atvinnumál

432

Kórónufaraldurinn hefur sett atvinnulífið í uppnám en sveitarfélagið er fjárhagslega sterkt og vel í stakk búið til að ráðast í miklar framkvæmdir til að örva atvinnu í héraðinu.  Munum líka að þetta er tímabundið ástand.  Svæðið hefur mikla sérstöðu og verður áfram sterkur segull fyrir ferðamenn þegar fram líða stundir.

Það eru þrátt fyrir allt talsverð umsvif í samfélaginu. Ekki ber á öðru en að verkefni séu góð hjá iðnaðarmönnum.  Einstaklingar byggja hús sem aldrei fyrr og í smíðum eru brýr í Suðursveit sem heimaverktakar koma að. 

Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins.

Í ár er gert ráð fyrir að sveitarfélagið framkvæmi fyrir nálægt 800 miljónir og litlu minna árið 2021. Á fjögura ára tímabili verða framkvæmdir meira en 2 miljarðar króna.  Fjárhagurinn leyfir þessar framkvæmdir.  Árið 2019 skilaði sveitarfélagið 468 miljón króna hagnaði og skuldirnar eru litlar.

Helstu framkvæmdir í ár eru upphaf á byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem ljúka á árið 2022, breyta á húsnæði gamla Krakkakots fyrir málefni fatlaðs fólks, Mikilgarður fær 40 miljónir og síðan 20 miljónir á hverju ári til 2023 og endurbætur á Vöruhúsi halda áfram.  Þá verður fjármagn lagt til endurbóta á Sindrabæ sem halda áfram næstu 2 árin.  Hafist verður handa við endurbætur á Hafnarbraut sem lýkur á næsta ári. 

Sjávarútvegurinn burðarás

Loðnubrestur annað árið í röð hjálpar ekki til í stöðunni og humarkvóti hefur dregist mikið saman. Þrátt fyrir það stendur sjávarútvegur sterkt á staðnum.  Fjárfestingar í nýjum skipum og vinnslulínum gera það kleift að hægt er að sækja á fjölbreytta markaði um allan heim.  Þrátt fyrir að veitingahús séu víðast hvar lokuð í heiminum er mikið verslað í stórkmörkuðum. Með fjölbreyttri vinnslu er hægt að bregðast við slíkum sveiflum.

Öll él birta upp um síðir

Ríki og sveitarfélög þurfa að gera það sem í þeirra valdi stendur til að verja störf og afkomu heimila og fyrirtækja.  Nú þegar hefur ríkið sett fram aðgerðapakka og von er á fleirum.  Öll él birta upp um síðir en mikilvægast nú er að hlúa að þeim sem minnst mega sín í þessu ástandi.

Kristján S. Guðnason, formaður atvinnu- og menningarmálanefndar