Gleðilegt sumar!

251

Vorið er komið og grundirnar gróa eins og segir í ágætu ljóði eftir Jón Thoroddsen. Að margra mati þá er þetta skemmtilegasti árstíminn allt er að vakna, farfuglarnir mættir og leika við hvern sinn fingur. Við sjáum grasið grænka sumir meira að segja telja sig heyra það grænka og grámygla vetrarins er að baki. Við mannfólkið verðum léttari í sinni, börnin rífa sig úr peysum þó eingöngu sé 8 gráðu hiti en sólin vermir bætir og kætir.

Þegar þetta er skrifað að morgni sumardagsins fyrsta þá lítur út fyrir einn blíðviðrisdaginn í viðbót, en veðrið hefur verið með miklum ágætum undanfarna daga hér á Hornafirði og það er ekki annað að sjá en að Hornfirðingar hafi verið duglegir að nota góða veðrið og sinna sínum görðum og nærumhverfi. Stofnanir og fyrirtæki hafa ekki látið sitt eftir liggja og í gær sá maður grunnskólabörn út um allar trissur að tína rusl vetrarins sem hafði náð haldi í limgerði eða lá í vegkanti.

Hreinsunarvika sveitarfélagsins stendur nú yfir og á laugardaginn er STÓRI PLOKKDAGURINN á Degi umhverfisins. Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu halda utanum daginn og hvetjum við alla til að taka þátt og leggja þessu góða og þarfa máli lið.

Fordæmalausir tímar

Nú gengur yfir okkur Íslendinga og alla heimsbyggðina veiru skratti sem ætlar að verða okkur dýrkeyptur í orðsins fyllstu merkingu. Fólk verður fárveikt, allavega sumir hverjir og því miður hafa nokkrir einstaklingar látist á Íslandi sem fengið hafa veiruna. Þessa vegna er mikilvægt að við höldum út, förum eftir tilmælum sótvarnarlæknis.

En heilsubrestur er ekki það eina sem fylgir pestinni heldur verða henni samhliða miklar efnahagsþrengingar eins og alþjóð er kunnugt. Það verður eitt af stóru verkefnum ríkis og sveitarfélaga næstu mánuði að styðja við fyrirtæki og íbúa í þessum þrengingum og reyna eftir bestu getu að stýra skútunni farsællega í land

Það er lán okkar Austur-Skaftfellinga að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við þessar þrengingar eins og ársreikningur fyrir árið 2019 sýnir. Nú eru komnir tæplega hundrað manns á atvinnuleysisskrá og margir í skertu starfshlutfalli svo það er fyrir séð að tekjur sveitafélagsins eru að dragast saman samhliða auknum útgjöldum. Það er eindreginn vilji bæjarstjórnar að gera allt sem er í hennar valdi til að styðja við og nota þær vinnufúsu hendur. Við munum hjálpa, bæta og gæta eins og við getum, við erum öll í þessu saman.

Þó svo það fari í hönd erfiðir tímar þá er það mín trú að þetta verði ekki vondir tímar. Það er ekki stríð eða hungursneið sem herjar á okkur Hornfirðinga. Við getum notað tímann til góðs. Þéttað raðirnar og undirbúið okkur til að taka á móti gestum sem hingað koma með enn meiri myndarskap. Við getum líka notað tímann með fjölskyldu og vinum þó auðvitað allt innan þeirra takmarka sem þríeykið setur okkur.

Við erum öll í þessu saman og auðvitað plokkum við öll á laugardaginn.

Gleðilegt sumar  

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.