Páskapistill frá formanni Framsóknarflokksins

468
Sigurður Ingi Jóhannsson

Við lifum nú tíma sem eru einstakir í sögu Íslands og heimsins og munu eflaust fá drjúgan kafla í sögunni. Við munum sem þjóð verða dæmd á því hvernig við bregðumst við heilbrigðisvánni en síður hvernig við náum viðspyrnu sem samfélag þegar kemur að almennum lífsgæðum. Við erum sterkt samfélag sem hefur á síðustu árum búið í haginn af skynsemi. Ríkissjóður stendur sterkur eftir að hafa greitt niður skuldir á sama tíma og miklum fjármunum hefur verið varið í uppbyggingu innviða. Heimili og fyrirtæki hafa sömuleiðis lækkað skuldir sínar verulega. Við stöndum því betur að vígi en margar nágrannaþjóðir okkar þegar kemur að áföllum.

Það er mikilvægt að missa ekki dampinn. Við í Framsókn höfðum mánuðina fyrir heimsfaraldurinn lagt mikla áherslu á aukna innspýtingu í hagkerfið okkar með sérstöku fjárfestingarátaki. Það er ljóst að slíkt átak verður að vera umfangsmeira, nú þegar við berjumst við efnahagsleg áhrif veirunnar.

Í þessum páskapistli í Leiðarhöfða vil ég því sérstaklega nefna þau verkefni sem framundan eru á svæðinu í kringum Höfn í Hornafirði. Fyrst vil ég nefna að frumvarp mitt um samvinnuleið í samgöngum er komið inn í nefnd á þingi og verður vonandi afgreitt ásamt nýrri samgönguáætlun á næstu vikum. Þegar það liggur fyrir er ekkert því til fyrirstöðu að bjóða út nýja brú og veg yfir Hornafjarðarfljót en Vegagerðin hefur unnið hörðum höndum að undirbúningi. Framkvæmdir geta því vonandi hafist fljótlega og verkinu verið lokið fyrir árið 2023.

Samið hefur verið við Ístak um tvöföldun fjögurra brúa yfir Steiná, Fellsá, Kvíá og Brunná. Útrýming einbreiðra brúa er mikilvægur þáttur í þeim áherslum sem ég hef sett í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi. Einnig vil ég nefna að næstu skref við Grynnslin eru fjármögnuð og á áætlun, bæði framkvæmdir við sandfangarann sem og áframhaldandi rannsóknir.

Fyrir skemmstu setti ég af stað óformlegan hóp sem er ætlað að vinna með heimamönnum og Isavia við að finna sem hraðast skynsamlega leið til að opna á frekari lendingar einkaflugvéla á Hornafjarðarflugvelli. Aukinn kraftur verður settur í það samtal á næstu vikum.

Þau eru fjölmörg verkefnin sem fara af stað á næstu vikum og tengjast fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins. Markmið átaksins er að skapa störf um allt land við verkefni sem eru þjóðhagslega mikilvæg. Áætlunin miðar að því að störfin séu fjölbreytt en mikil áhersla er lögð á samgöngubætur enda erfitt að finna verkefni sem skapa jafnmörg störf og jafnmikil verðmæti fyrir samfélagið í bráð og lengd.

Næstu vikur verða okkur ekki auðveldar. Og ekki bætir úr skák að við getum ekki hitt vini, ættingja og samstarfsfólks vegna aðgerða til að hefta útbreiðslu bölvaðrar veirunnar. Við verðum reglulega að minna okkur á að ástandið er tímabundið. Við megum ekki missa móðinn heldur vinna af krafti að því að takast á við sjúkdóminn sjálfan og ekki síður búa okkur undir það þegar hjólin fara að snúast á ný. Ég er þess fullviss að Ísland verður í öfundsverðri stöðu þegar við höfum náð tökum faraldrinum og munum líkt og eftir síðasta áfall ná hraðri viðspyrnu og standa sterkt sem eitt besta velferðarríki í heiminum.

Páskahátíðin er tákn um upprisu og von. Njótum þess að hugsa um og til okkar nánustu á meðan við nörtum í páskaeggin okkar. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson

formaður Framsóknarflokksins