Höldum í hamingjuna

235

Í dag 20. mars er Alþjóðlegi hamingjudagurinn. Haldið er upp á Alþjóðlega hamingjudaginn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Markmið dagsins er að vekja athygli á hamingju sem mikilvægu markmiði einstaklinga og stjórnvalda til að skapa heilbrigt og gott samfélag. 

Undarfarnar vikur og ekki síst sú sem er að líða hafa verið nokkuð undarlegar og fært okkur verkefni sem ekki eru fordæmi fyrir. Segja má að hver einasti einstaklingur þurfi að aðlaga líf sitt að nýjum venjum t.d. í formi sóttvarna og endurskipuleggja daglegt líf.

Stöndum saman í farsóttinni

Það er magnað hvernig samfélagið hefur brugðist við og allir lagt sín lóð á vogarskálarnar til að aðlaga sig og sína starfsemi að ástandinu. Ég vil sérstaklega þakka stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins í leik- og grunnskólum sem hafa endurskipulagt starf barna og ungmenna af mikilli röggsemi. Í dag erum við að klára fyrstu vikuna í skertu skólahaldi og hefur hún gengið vel. Takk börn og foreldarar fyrir ykkar stóra þátt í því að þetta gengur upp. Á hverjum degi þarf að endurmeta stöðuna og skoða hvað við getum gert betur.

Við kjörnir fulltrúar og stjórnsýslan vinnum í því að finna leiðir til þess að veita viðspyrnu við þeim samfélagslegu áhrifum sem Covid-19 faraldurinn mun hafa á atvinnulíf og einstaklinga í samfélaginu. Á vettvangi sambands íslenskra sveitarfélaga hafa komið fram tillögur og verið óskað eftir lagabreytingum á vegum ríkisins til þess að sveitarfélög geti brugðist við og því hefur verið vel tekið. Einnig fylgjumst við með þeim frumvörpum sem unnið er að til þess að létta fyrirtækjum  og samfélaginu öllu róðurinn í gegnum þennan storm sem við erum með í fangið.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Þá vil ég vekja athygli á því að á 271. fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar í gær var ákveðið að sækja um aðild að verkefni félags- og barnamálaráðuneytisins og UNICEF um barnvænt sveitarfélag. Verkefnið felst í því að sveitarfélagið innleiði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem UNICEF hefur þróað. Hér er eitt risastórk skref í að gera samfélagið okkar enn betra en það er í dag.

Til baka að Alþjóðlega hamingjudeginum og getur hamingja falist í þeim aðstæðum sem við búum við í dag? Mín niðurstaða er, já svo sannarlega.

Ég er hamingjumsöm að búa í samfélagi það sem allir leggjast á eitt til að gera líf hvors annars betra og öruggara. Það hvetur mig til að gera mitt besta og leggja mín lóð á vogarskálarnar fyrir aðra til jafns við mitt fólk. – Njótið dagsins!

Ásgerður K. Gylfadóttir