Flest höfum við skoðun á skólakerfinu, sem er eðlilegt því við höfum reynslu af því sjálf og tengjumst því með einum eða öðrum hætti í gegnum börnin okkar eða barnabörn. Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum og öll viljum við að þeim líði vel, séu hamingjusöm og framtíð þeirra björt og farsæl.
Skólagangan er stór hluti af lífi okkar, mislöng, en flest klárum við grunnskólanámið sem er 10 ár. Það er langur tími á miklum mótunarárum í lífi barna og ungmenna, og því er gríðarlega mikilvægt að öllum líði sem best og að við sköpum börnum okkar bestu aðstæður sem við mögulega getum hverju sinni.
Seinkun skólastarfs
Undanfarin ár hafa reglulega skapast umræður um seinkun skólabyrjunar, og þá aðallega í tengslum við mikilvægi svefns fyrir ungmennin okkar. Umræður um svefn hafa sjaldan verið meiri í kjölfar rannsókna sem sýna að það hjálpar unga fólkinu okkar að hefja skóladaginn seinna, sjá ítarlegri upplýsingar í fréttabréfi á heimasíðu Grunnskólans hér. Það er því eðlilegt að umræðan skjótist upp aftur í samfélaginu okkar og ekkert nema sjálfsagt að skoða þessi mál í samvinnu við skólasamfélagið allt.
Að seinka skólabyrjun til kl. 9 hentar líklega mörgum, en alls ekki öllum. Ef af verður hentar það eflaust sérstaklega vel þeim nemendum sem búa í dreifbýlinu og þurfa að vakna fyrir allar aldir til þess að fara í skólabílinn, en ekki endilega öllum. Eldri nemendur sem eru árrisulir geta mætt kl. 8 og stundað heimanám fram að skólabyrjun, eða nýtt tækifærið og farið í líkamsrækt sem annars hefði beðið þar til seinnipart dags. Þeir nemendur sem eiga ekki annarra kosta völ en að mæta kl. 8 munu geta gert það áfram því skólinn mun opna á sama tíma, þó formlegt nám hefjist ekki fyrr en seinna. Síðan eru það tómstundirnar sem börnin okkar stunda. Lengist þá dagurinn hjá þeim sem stunda íþróttir þar sem skólanum lýkur síðar? Það er mikilvægt að samtal og gott samstarf eigi sér stað við íþróttahreyfinguna. Ég veit að umræða hefur farið fram um endurskipulag og aukið samstarf milli þessara aðila til þess að koma í veg fyrir að börnin okkar verði langt fram eftir kvöldi á æfingum. Það er því eitt og annað sem þarf að skoða vel ef vilji samfélagsins er að byrja seinna á morgnana, en ekkert sem ekki er hægt að leysa með góðu samstarfi.
Húsnæðismál GH til framtíðar
Tímabært er að taka ákvörðun um hvaða stefna er tekin varðandi framtíðarhúsnæði Grunnskólans. Það er eitt og annað sem þarf að huga að, laga, breyta, stækka o.s.frv. Húsnæði Kátakots er óviðunandi, bæði stærð og ástand. Grunnskólann vantar samkomusal og stærri matsal, sumar kennslustofur í Hafnarskóla sérstaklega henta illa þeim bekkjarstærðum sem eru núna og við sjáum fram á að verði næstu árin. Við viljum að sjálfsögðu líta björtum augum á framtíðina og reikna með fjölgun íbúa ekki fækkun. Þá þarf að skoða vel og taka ákvörðun um framtíðarhúsnæði Grunnskólans. Hvar viljum við eiga þess kost að stækka við skólann? Hvar sjáum við fyrir okkur matsal, samkomusal, lengda viðveru o.s.frv.? Er ein bygging málið, eða áfram tvær?
Það eru margir punktar sem þarf að skoða og ræða við skólasamfélagið allt, áður en ákvarðanir verða teknar. Því hvet ég sérstaklega alla foreldra og forráðamenn grunn- og leikskólabarna að mæta á opinn fund í Nýheimum fimmtudaginn 19. mars kl. 16:30.
Íris Heiður Jóhannsdóttir
Formaður fræðslu- og tómstundanefndar