Næsta stóra verkefni í uppbyggingu mannvirkja hlýtur að vera bygging íþróttahúss. Okkar gamla ágæta hús hefur staðið sig vel en þjónar ekki þeim krafti sem er í íþróttalífi staðarins í dag. Karfan er á mikilli siglingu og gott andrúmsloft að myndast í kringum greinina á staðnum. Þá liggur fyrir að koma þurfi líkamsræktaraðstöðu fyrir á varanlegum stað og þá liggur beinast við að skoða uppbyggingu samhliða byggingu íþróttahúss. Ekki þarf heldur að orðlengja um þörf á fimleikahúsi en iðkendur í þeirri grein eru vel á annað hundrað og flestir af yngri gerðinni. Ofan á þetta bætist blak og aðrar inni íþróttir sem myndu fá byr í seglin með bættri aðstöðu.
Staðsetning
Það hefur verið velt við mörgum steinum í umræðu um staðsetningu. Fyrst var rætt um byggingu sem tengdi saman núverandi íþróttahús og sundlaug og í framhaldi stækkun núverandi íþróttahúss yfir á miðsvæðið. Það hefur sína kosti. Gallarnir eru samt þeir að skuggamyndun á sundlaug gæti orsokað að ekki væri eins sólríkt þar öllum stundum þegar þannig viðrar. Auk þess gæti það hamlað okkur ef við vildum stækkja sundlaugina upp í 50 metra.
Þá er horft til æfingasvæðisins sem liggur samhliða Víkurbraut, við aðalvöll Sindramanna. Það getur auðveldlega rúmað hús þar sem hægt er að koma fyrir góðu og fullbúnu húsi fyrir þær greinar sem nefndar voru hér að ofan. Það er mikilvægt að klára að staðsetja húsið og hefja hönnun byggingarinnar.
Nýting á núverandi húsi
Núverandi íþróttahús mætti útbúa betur sem samkomusal, fyrir grunnskólann sem skortir slíka aðstöðu og samfélagið í heild. Núna eru stórar samkomur haldnar í íþróttahúsinu, eins og þorrablót, Sjómannadagsskemtun og Humarhátíð. Útbúa mætti salinn betur fyrir slíka viðburði og gera enn skemmtilegri.
Kristján Sigurður Guðnason.