Af heilbrigðismálum

139

Samningur um rekstur heilbrigðisþjónustu á Höfn

Undanfarin ár hefur sveitarfélagið verið með þjónustusamning við ríkið um rekstur heilsugæslustöðvar, sjúkrarýma og sjúkraflutninga sem hefur verið endurnýjaður reglulega. Greiðslur í samræmi við samninga hafa verið með milligöngu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi, sem heilbrigðisstofunin hér á Höfn hefur tilheyrt síðan árið 2014. Núverandi samningur rann út síðastliðin áramót og hófust samningaviðræður á seinasta ári. Á haustmánuðum var það hins vegar endanlega ljóst að  Heilbrigðisráðuneytið hyggðist ekki endurnýja samning við sveitarfélagið í sömu mynd og verið hefur. Síðan fyrir áramót hafa verið viðræður við HSU um þjónustusamning um rekstur heilsugæslustöðvar, sjúkrarýma og sjúkraflutninga og hafa þær viðræður gengið ágætlega. Áætlað er að rekstur verði skv. nýjum samningi frá og með 1. apríl næstkomandi og er eldri samningur í gildi þangað til. Undanfarna áratugi hefur mikil samþætting  verið á heilbrigðisstofnuninni og er lagt upp með að hún nýtist áfram þótt nýtt rekstrarfyrirkomulag verði á stofnuninni. Og vonandi verða þjónustuþegar stofnunarinnar ekki varir við breytingar nema til þess betra.

Nýtt hjúkrunarheimili

Í byrjun seinasta árs var auglýst samkeppni um hönnun nýs hjúkrunarheimilis að Víkurbraut 29. Skemmst er frá því að segja að Basalt arkitektar urðu hlutskarpastir í samkeppninni og hófst hönnun hjúkrunarheimilisins s.l. haust. Nú styttist óðum í að framkvæmd við byggingu nýs hjúkrunarheimilis verði boðin út en unnið er að gerð útboðsgagna þessa dagana. Vonandi sjáum við fyrstu skóflustungu fyrir byggingunni áður en nýr vetur gengur í garð síðar á árinu. Einnig verður stærsti hluti núverandi hjúkrunarheimilis endurinnréttaður. Öll hjúkrunarrými heimilisins verða einbýli og einnig verða í byggingunni ýmis stoðrými eins og líkhús, kapella, rými fyrir sjúkraþjálfun og fleira. Ljóst er að ný og endurbætt bygging verður bylting fyrir íbúa og starfsmenn hjúkrunarheimilisins ásamt því að aðstandendur koma til með að njóta góðs af nýrri aðstöðu.

Heimahjúkrun og heimaþjónusta við aldraða

Í febrúar á seinasta ári var skipaður starfshópur um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Hluti afraksturs þessa hóps hefur komið til framkvæmdar og vert er að segja frá því að frá desember s.l. hefur starfsfólk dvalarheimilisins Mjallhvítar sinnt kvöld og helgarþjónustu eldri borgara á Ekru svæði að því gefnu að þjónustunotandinn sé með samþykkta umsókn og færnimat frá heimahjúkrun HSU Hornafirði. Stefnt er að því að útvíkka þessa þjónustu enn frekar með frekari samþættingu.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, formaður heilbrigðis- og öldrunarnefndar.