Ferðaþjónusta og aðalskipulag

394

Ferðaþjónustukafli aðalskipulagsins fyrir Hornafjörð hefur verið í endurskoðun síðan um mitt ár 2017 þegar þáverandi bæjarstjórn ákvað að þörf væri heildarendurskoðun á þessum kafli.  Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í kjölfar aukningar á ferðamönnum í okkar ágæta sveitarfélagi. Einnig hafa leikreglur breyst á þessum árum. Svokölluð heimagisting var þrengd með 90 daga reglunni en síðar var sveitarfélögum heimilt að leyfa rekstur svokallaðra minni gistiheimila í íbúðarbyggð, með skilyrðum en án þess að breyta þurfi aðalskipulagi.

Minni gistiheimili

Um minni gistiheimili segir í reglugerð:

Minna gistiheimili: Gististaður með takmarkaða þjónustu þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða hefur rými fyrir 10 einstaklinga eða færri. Getur verið gisting á einkaheimili. Ekki er gerð krafa um handlaug í herbergjum. Gestir skulu hafa aðgang að fullbúinni baðaðstöðu.  

Hér við bætist þær kröfur sem sveitarfélagið getur sett svo sem krafa um bílastæðafjölda og annað sem við gætum ímyndað okkur að drægi úr ónæði sem nágrannar upplifa.  Fleiri dæmi um skilyrði má nefna ákvæði um hámarksfjölda gististaða í tilteknum götum eða hverfum með það að markmiði að tryggja íbúðir til fastrar búsetu. Jafnframt getur átt við að setja bann við gististöðum í tilteknum götum og hverfum vegna sérstakra aðstæðna.

Það sem menn hafa helst talið þessu til vansa er að margar íbúðir sem gætu verið undir fjölskyldur fara undir ferðamenn. Þessa vegna sé erfitt að fá leigt hér í þéttbýlinu. Einnig er nefnt að götustemming sé ekki  eins og áður, að það sé lagt út á götum eða jafnvel í stæðin hjá nágrönnunum og fasteignarverð hækki.  Síðast nefnda atriði gætu ýmsir séð sem merki um öflugt samfélag. 

Leyfum minni gistiheimili

Ég hef talað fyrir því að heimila þetta og ætla að telja upp nokkur rök fyrir því: sveitarfélagið getur heimilað þetta með skilyrðum, fasteignarskattur yrði lagður á eins og af atvinnuhúsnæði, og það er mín trú að þannig sé betur tryggt að þessi starfsemi verði uppá yfirborðinu en ekki í svarta hagkerfinu.  Einnig viljum við fasteignaeigendur ekki að íbúðarverð lækki um of þó svo ég hafi ekki miklar áhyggjur af því, ekki frekar en ég hafi áhyggjur af því að hér verði sprenging af minni gistiheimilum.  Ein rök sem vega þungt er réttur fólks yfir eignum sínum.  Segjum sem svo að laus herbeggi séu í húsinu og hvers vegna ætti bara að vera hægt að leigja þau út í 90 daga eða fyrir tvær miljónir.  Svo framarlega sem fasteignaeigandinn veldur ekki nágrönnum sínum ama eða skaða að þá ætti að heimila þessa starfsemi.

Þessi umræða er ekki ný af nálinni og ýmis málefnaleg sjónarmið sem takast um um hvort rétt eða rangt sé að heimila starfsrækslu minni gistiheimila.  Að ofan hef ég reynt að draga fram þau rök sem mér finnst benda til þess að með heimild fyrir starfrækslu minni gistiheimila í íbúðabyggð séum við að láta stæri hagsmuni ráða umfram minni.

Ásgrímur Ingólfsson.

*****

Sveitarfélagið fékk Verkfræðistofuna EFLU til að leggja matt á verkefnið, hér fyrir meðan er úrdráttur úr þeirra innleggi.

Lög og reglugerðir um heimagistingu eru eftirfarandi: 

• Lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald  og lögum nr. 67/2016 um breytingu á þeim lögum. • Reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Ekki er komin mikil reynsla á núverandi reglugerð frá 2016 en allmörg sveitarfélög hafa verið að setja takmarkanir inn í sínar aðalskipulagsáætlanir, hér eru nokkur dæmi: 

• Mýrdalshreppur – Settar voru reglur í þéttbýlinu í Vík þar sem skammtímaútleiga á húsnæði var óheimil í íbúðarhúsnæði en almennt máttu menn hafa heimagistingu, á sínu heimili. Með nýrri reglugerð var í raun sett takmörkun á heimagistingu nema í þá 90 daga sem reglugerðin kveður á um, og því voru skilmálar í Vík orðnir í ósamræmi við lögin.

• Vestamannaeyjarbær heimilar, í ný samþykktu aðalskipulagi, gistingu í allt að 5 herbergjum eða fyrir 10 gesti á íbúðarsvæðum, óháð staðsetningu.

 • Í drögum að endurskoðuðu aðalskipulagi í Grindavík segir;  „Heimilt er innan íbúðarbyggðar að hafa verslun, þjónustu o.fl. sem nýtist nærsvæðinu eins og matvöruverslun, sjoppu eða álíka eins og kveðið er á í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá er heimil gisting sbr. 13 gr. reglugerðar 1277/2016, um heimagistingu, í flokki I-ll enda hafi leigusalar næg bílastæði fyrir sína gesti.“

• Í Rangárþing Ytra stendur  „Á íbúðarsvæðum er heimilt að hafa minni háttar atvinnustarfsemi s.s. vinnustofu, hreinleg verkstæði eða heimagistingu sbr. reglugerð 1277/2016 m.s.br, enda séu næg bílastæði innan lóðar til að þjóna starfseminni og ekki skapist hávaði eða annað ónæði af henni. Heimilt er að leigja út húsnæði til lengri tíma sbr. Húsaleigulög nr. 36/1994 m.s.br ….“

Nokkrir möguleikar eru fyrir hendi til að setja skilmála um að heimila gistingu í íbúðarhverfum. Almennt er ákveðið ónæði sem fylgir ferðaþjónustu á íbúðasvæðum s.s. heimagistingu, þrátt fyrir góðan vilja rekstraraðila. Þar má nefna umferð á öllum tímum sólahrings, uppbank í svipuðum húsum í næsta nágrenni þar sem spurt er til vegar auk bifreiða, sem oft er lagt í götunni.  Sveitarfélagið getur því t.d. sett ákvæði um einhverjar takmarkanir og ávallt er krafa um almenn starfs- og rekstarleyfi. 

Hér eru sett fram tvö dæmi um mögulega framsetningu skilmála í aðalskipulagi:

1. Í íbúðarbyggð innan þéttbýlis á Höfn er heimiluð heimagisting í allt að 5 herbergjum eða fyrir 10 gesti skv. reglugerð nr. 1277/2016 m.s.br. Er um að ræða gistingu í flokki l -ll skv. 3. gr. sömu reglugerðar. Gerð er krafa um nægilegan fjölda bílastæða á og við lóð t.d. 0,8 stæði fyrir hverja 2 gesti (1 herbergi).

 2. Heimilt er að reka heimagistingu innan íbúðarsvæða sem eru í húsaröðum næst stofn og tengibrautum í þéttbýlinu (þ.e. sem markaðar eru á þéttbýlisuppdrátt). Gisting í flokki I og II skv. reglugerð nr. 1277/2016 m.s.br. Bílastæði skulu vera innan lóðar eins og kostur gefst en gera þarf grein fyrir fjölda stæða og úrlausnum á því efni við umsókn um leyfi til reksturs heimagistingar.  

Gisting er heimil í allt að 90 daga á hverju almannaksári eða þar til tekjur ná ákv. viðmiði skv. 4 gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 m.s.br. Tilkynna ber um slíka starfsemi til sýslumanns á höfuðborgarsvæði og því óljóst hvort sveitarfélag hafi nokkra yfirsýn yfir þá tegund gistingar.

Viss rök eru fyrir því að heimila gistingu umfram þessa 90 daga svo fremi sem skilyrðum fyrir starfseminni sé fullnægt. Þar má m.a. nefna möguleika einstaklinga á að skapa sér atvinnu og tekjur, styrkja ferðaþjónustu, fá gesti til að dvelja lengur í sveitarfélaginu og styrkja þannig hag íbúa sem og sveitafélags sem ávallt hefur einhverjar tekjur beint og óbeint af slíkri starfsemi.

Rök fyrir að heimila gistingu, umfram 90 daga, einungis næst stofn- og tengivegum (liður 2) er að þar er umferð gesta og heimafólks meiri en í rólegum botngötum eða litlum tengivegum. Þetta er þá viðleitni til að ekki sé verið að vísa ferðafólki inn í rólegu íbúðasvæðin. Út frá jafnræðissjónarmiðum kann að vera eðlilegra að láta skilmála um gistingu umfram 90 daga, taka yfir alla íbúðarbyggð.

Þar sem gisting er innan íbúðarbyggðar getur skapað togstreita á milli starfseminnar og  íbúa hverfisins. Til að gæta þess að hagsmunaaðilar séu upplýstir um fyrirhugaða starfsemi mætti setja í skilmála kröfu, að þegar sótt er um leyfi til reksturs heimagistingar skuli grenndarkynna tillöguna fyrir nágrönnum og þá eftir atvikum bjóða upp á að íbúar geti komið athugasemdum til skipulagsfulltrúa/byggingarfulltrúa áður en leyfið er veitt. Þekkt er að skortur á bílastæðum veldur óánægju. Umferðasérfræðingar hafa nefnt að hægt er að notast við viðmið fyrir bílastæði sem er 1 stæði á hvert herbergi/gistirými. Eða eins og gert er ráð fyrir ofar 0,8 stæði á hvert herbergi/gistirými. Einnig má horfa til samnýtingar á stæðum innan götu eða skammt frá gististað. Tilefni getur verið til að meta bílastæðaþörf í hverju tilfelli fyrir sig þegar sótt er um leyfi til reksturs.