Gleðilegt nýtt ár og velkomin á Leiðarhöfða!

610

Um leið og við óskum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar gleðilegs árs og þökkum fyrir hið liðna viljum við kynna nýja vefsíðu sem við höfum sett á laggirnar.  Leiðarhöfði er vefsíða sem Framsóknarfélag Austur Skaftafellinga og bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði standa að.   Hér mun vera vettvangur fyrir fréttir af starfi félagsins, bæjarfulltrúanna og nefndarmanna –  auk þess hvað er á döfinni og /eða í undirbúningi.  Það er okkar markmið að með þessu fái íbúar betri möguleika á að fylgjast með störfum okkar og koma athugasemdum og ábendingum til okkar. 

Félagsstarfið

Félagsstarfið hjá Framóknarfélaginu hefur verið með þeim hætti á liðnu hausti að boðað hefur verið til félagsfunda með vöfflukaffi sem hefur verið ágætlega sótt. Haldinn var fundur er ritari flokksins Jón Björn Hákonarson kom í heimsókn þann 9. október sl.

Auk þessa hélt formaður flokksins Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ásamt Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmanni mjög vel sóttann fund á Hótel Höfn þann 24. september sl. Fulltrúar félagsins mættu á kjördæmisþing KSFS á Kirkjubæjarklaustri og á miðstjórnarfund á Akureyri í nóvember.

Fjárhagsáætlun

Varðandi sveitarstjórnarmálin þá voru fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023  einróma samþykktar af allri bæjarstjórn á síðasta fundi ársins þann 13. desember sl. Það er mjög ánægjulegt þegar allir bæjarfulltrúar eru sammála um heildar ramma rekstrar þó einhver áherslumunur sé milli manna eða framboða.

Fjárhagsáætlunin er metnaðarfull og er lögð áhersla á framkvæmdir tengdar velferðarmálum s.s. hjúkrunarheimili, breytinga og viðhalds á Víkurbraut 24 sem mun hýsa Heimaþjónustudeild, málefni fatlaðra, félags- og skólaþjónustu sveitarfélagsins. Lokið verður við áætlaðar framkvæmdir í Vöruhúsi og hafist handa að nýju við Sindrabæ.

Hafin er hönnun við endurbætur á Hafnarbraut og lokið verður við framkvæmdir við hreinsivirki fráveitunnar í Óslandi.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafin verður vinna við stefnumótun fyrir sveitarfélagið í heild í tengslum við heimsmarkmið sameinuðuþjóðanna núna í janúar og aukin áhersla verður á umhverfis- og loftslagsmál m.a. með aðild sveitarfélagsins að Festu miðstöð um samfélagsábyrgð. Lykilatriði í þeim málum er samvinna og samtal við íbúa og berum við von til að íbúar verði tilbúnir til þess að taka þátt í þeim verkefnum með okkur.

Bæjarstjórn á netinu

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið í fararbroddi um langt skeið með því að taka upp bæjarstjórnarfundi, senda út og hafa þá aðgengilega á internetinu. Í lok síðasta árs var tekin upp sú nýbreytni að senda fundina út í beinu streymi í gegnum netið þannig að fólk getur fylgst með í rauntíma en síðan er fundurinn aðgengilegur áfram á netinu. Einnig var þessi háttur hafður á með íbúafund um fjárhagsáætlun sem haldinn var í Nýheimum.

Við hvetjum íbúa til að fylgjast með fundunum og auðvitað fundargerðum nefnda og ráða á vef sveitarfélagsins.

Mörg spennandi verkefni eru framundan á nýju ári og vonandi mun þessi nýji vettvangur sem Leiðarhöfði er gefa lesendum enn betri innsýn í þau verkefni og hvetja til þátttöku íbúa í umræðu og íbúafundum.  

Ásgerður Gylfadóttir, oddviti
Kristján Sigurður Guðnason, formaður