Nýtt íþróttahús á Höfn

605

Á bæjarstjórnarfundi í dag fimmtudaginn 9. janúar gerði undirritaður grein fyrir afstöðu bæjarfulltrúa B lista til staðarvals fyrir nýtt íþróttahús á Höfn.

Íþróttahús – rökstuðningur fyrir viðbyggingu við núverandi íþróttahús

Undirritaður hefur setið í stýrihópi vegna nýs íþróttahúss síðan í febrúar 2024 en hlutverk stýrihópsins var m.a. að „stýra vinnu og leita hagkvæmustu og bestu lausna við hönnun, byggingu og rekstur hússins“ eins og kemur fram í erindisbréfi stýrihópsins. Síðan síðsumars 2024 hefur hópurinn síðan verið að skoða þrjár tillögur að íþróttahúsi. Tillaga A var stakstætt hús við hlið Sindravalla með tvöföldum íþróttasal og þá yrði gert ráð fyrir að fimleikar yrðu í núverandi íþróttahúsi. Tillaga B var stakstætt íþróttahús við hlið Sindravallar með tvöföldum íþróttasal ásamt  fimleikasal með möguleika á opnum milli þessara sala. Tillaga C var síðan viðbygging við núverandi íþróttahús og þá yrði gert ráð fyrir að fimleikar yrðu í núverandi íþróttasal en yrðu þá samt sem áður undir sama þaki og fleiri íþróttagreinar.

Á dögunum tók meiri hluti stýrihópsins ákvörðun um að byggt væri stakstætt íþróttahús á núverandi æfingarsvæði við hlið Sindravalla eða á gamla malarvellinum eins og stundum er sagt. Þá er gert ráð fyrir að fimleikar verði í núverandi íþróttahúsi og er það því í samræmi við tillögu A. Ég sjálfur var hins vegar fylgjandi því að byggt yrði við núverandi íþróttahús og hefði viljað leita allra leiða og lausna til að svo yrði. Það eru kostir og gallar við allar tillögurnar og báðar staðsetningarnar en kostir viðbyggingar finnst mér vera fleiri og vega þyngra en kostir stakstæðs húss.

Rökin fyrir að byggja frekar við núverandi íþróttahús eru mörg og hér að neðan fer ég yfir þau helstu:

Ein íþróttamiðstöð undir sama þaki

Með viðbyggingu fá íbúar sveitarfélagsins eina íþróttamiðstöð á einum stað og undir sama þaki. Þar  væru saman flest allar skipulagðar innanhússíþróttir ásamt fimleikum, sundi og líkamsrækt, hvort sem um væri að ræða líkamrækt fyrir styrktarþjálfun íþróttadeildanna eða líkamsrækt fyrir almenning. Gert yrði ráð fyrir því að fimleikarnir fengju núverandi íþróttasal og yrðu þannig í friði með sinn búnað en samt sem áður nálægt hinum greinunum. Með því tel ég að meira líf fengist í húsið, fólk á öllum aldursbilum sem stundaði mismunandi hreyfingu ætti leið saman um anddyri hússins sem yrði jafnfram hjarta þess. Þannig hefði allt samfélagið betra aðgengi að íþróttmiðstöðinni en yrði ekki takmarkað við ákveðnar íþróttagreinar. Undirritaður skoðaði, ásamt öðrum fulltrúum í stýrihópnum og starfsmönnum sveitarfélagins, ýmis íþróttahús á Suðurlandi og í Reykjavík. M.a. skoðuðum við íþróttamiðstöðina í Þorlákshöfn. Það sem heillaði mest við hana var að sjá hversu góð og skemmtileg stemming var þar en óhætt er að tala um það hús sem eina stóra íþróttamiðstöð. Í því húsi er stór íþróttasalur en hluti hans er einnig fimleikasalur, þar var síðan útisundlaug, innisundlaug, líkamsræktaraðstaða fyrir almenning, rými fyrir súkraþjálfara auk fleiri rýma. Stórt, sameiginlegt anddyri/alrými var síðan í byggingunni þar sem fólk á ýmsum aldri hittist á leið sinni í mismunandi hreyfingu og heilsurækt. Núna er því einstakt tækifæri til að koma mest öllu íþróttastarfi undir eitt þak og búa í leiðinni til einstakan samkomustað fyrir íbúanna.

Samnýting

Með viðbyggingu tel ég mun meiri möguleika á samnýtingu rýma hússins með annari starfsemi heldur en þeirri sem snýr beint að íþróttaiðkun. Þannig væri hægt samnýta rými eins og anddyri, starfsmannaaðstöðu, eldhús, fundarherbergi, salerni fyrir gesti, búningsklefa, tæknirými og fleiri rými með núverandi íþróttahúsi sem verður eins og áður segir notað fyrir fimleika. Einnig væri auðvelt að samnýta þessi rými með grunnskólanum. Sem dæmi yrði hluti þessarar viðbyggingar anddyri inn í Heppuskóla og þannig yrði innangengt úr skólanum í íþróttamiðstöðina sem getur verið hentugt, sérstaklega á veturna. Það er auk þess nauðsynlegt að nýtt íþróttahús nýtist starfsemi grunnskólans sem best enda er um að ræða aðalnotanda íþróttahússins og starfsemi grunnskólans eitt okkar helsta og stærsta lögbundna verkefni. Og þá spyr maður sig hvort að nægjanlegt samráð hafi verið við grunnskólann í aðdraganda ákvörunartöku á staðsetningu hússins. Með þessari samnýtingu ætti heildarfjöldi rýma að geta verið færri í viðbyggingu en í stakstæðu húsi. Samnýtingin verður einnig til þess að stofnkostnaður og rekstrarkostnaður verður minni en í stakstæðu húsi eins og ég fer betur yfir hér síðar. Með því að byggja nýtt anddyri/alrými fyrir nýja íþóttamiðstöð í anda tillögu C mundi það nýtast sem afgreiðsla fyrir hana ásamt sundlaug og líkamsræktaraðstöðu fyrir almenning, sem kemur vonandi sem fyrst. Einnig mundi þetta rými nýtast til að bæta aðstöðu starfsmanna sundlaugar en það hefur setið á hakanum í nokkurn tíma. En á sínum tíma stóð til að hún yrði að hluta til í millibyggingu milli sundlaugar og Heppuskóla. En ekki hefur orðið að byggingu þessar millibyggingar eins og allir vita.

Áfangaskipting

Mitt mat er að auðveldara sé að áfangaskipta uppbyggingu hússins þegar byggt er við núverandi íþróttahús. Þannig væri hægt að „borða fílinn“ í minni bitum þar sem hægt væri að bíða með byggingu eða innréttingu ýmissa stoðrýma þar til síðar og nýta stoðrými núverandi íþróttahúss fyrir viðbygginguna til skemmri tíma og hluta þeirra varanlega í tengslum við samnýtingu rýma eins og áður segir.

Unglingalandsmót UMFÍ

Með því að byggja viðbyggingu væri ekki verið að fækka æfingarvöllum fyrir knattspyrnu né þrengja að frjálsíþróttum. Einnig væri ekki verið að taka af keppnissvæði Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið er nokkuð reglulega hér á Höfn. En á því móti þurfa að vera til staðar nægir knattspyrnuvellir, sem næst öðru keppnissvæði mótsins. Auk þess þarf að vera til staðar góð frjálsíþróttaaðstaða en æfingarsvæði við hlið Sindravalla er einnig nýtt fyrir keppni í frjálsíþróttum á umtöluðu landsmóti.

Rekstrar- og viðhaldskostnaður

Þegar tillögur A, B og C voru kostnaðarmetnar var einnig metinn kostnaður við rekstur hverrar tillögu fyrir sig ásamt viðhaldskostnaði. Tillaga C, viðbygging við núverandi íþróttahús, kom þar hagstæðast út, þ.e. minnsti rekstrarkostnaður var á henni og einnig var viðhaldskostnaður minnstur. Þótt að ekki eigi að byggja nákvæmlega skv. neinni af þessum tillögum er samt sem áður sterk vísbending um að viðbygging sé hagkvæmust m.t.t. reksturs og viðhalds. Starfsmenn gætu  t.d. verið færri ef byggð væri viðbygging og þau samnýtast fyrir íþróttahús, sundlaug og fyrr eða síðar líkamsrækt. Þannig yrði umsjón og húsvarsla íþróttamannvirkja á einum stað í stað þriggja. Einnig yrðu t.d. færri útveggir á viðbyggingu ásamt því að einn útveggur á núverandi íþróttahúsi yrði að innvegg og þannig sparast t.a.m. töluverður kyndingakostnaður. Með viðbyggingu yrði einnig skjólsælla í sundlaug sem sparar einnig rekstrarkostnað sundlaugarinnar.

Stofnkostnaður

Stofnkostnaður tillögu C var metin svipaður og við tillögu A eða tæplega 4 milljarðar en kostnaður við tillögu B var rúmlega 4 milljarðar. Þó er rétt að taka fram að það voru fleiri hlutir inn í kostnaðarmati fyrir tillögu C heldur en hinum tillögunum. Þar má nefna færsla frjálsíþrótta- og knattspyrnuvallar ásamt flóðlýsingu, áhorfendastúkum fyrir Sindravelli, færsla buslulaugar og rennibrauta í sundlaug ásamt kostnaði við innisundlaug. En tillaga C þurfti að gera ráð fyrir færslu á frjálsíþrótta- og knattspyrnuvelli til suðausturs. Jafnframt er rétt að taka fram að nauðsyndlegt er að laga norðvesturenda vallarins, fyrr eða síðar, vegna sigs á honum þótt að byggt væri stakstætt hús. En kostnaður við þá lagfæringu var ekki inn í kostnaðarmati á stakstæðum íþróttahúsum. Yrði gert ráð fyrir þessum kostnaði við stakstæð hús ásamt flóðlýsingu og innisundlaug væri kostnaðurinn komin einhvers staðar á milli 4,5-5 milljarða.

Eins og ég nefndi hér áðan stendur ekki til að byggja beint eftir neinni af þessum tillögum þar sem kostnaður við þær telst of mikill fyrir sveitarfélag af okkar stærðargráðu og erfitt að réttlæta þær á kostnað annara framkvæmda sem þarf að fara í næstu árin. Ég get tekið undir það. En núna á að reyna skera niður kostnað við bygginguna og tel ég þá enn meiri ástæðu til að skoða nánar útfærslur á viðbyggingu. En miðað við áðurgreint kostnaðarmat fyrir mismunandi tillögur eru sterkar vísbendingar um að stofnkostnaður við viðbyggingu yrði minni en við stakstæða byggingu.

Áskoranir

Rætt hefur verið um framkvæmdarlega og fjárhagslega áhættu við að byggja viðbyggingu við núverandi íþróttahús og einnig um öryggi í nágrenni við hugsanlegt framkvæmdarsvæðið. Einnig hefur verið minnst á fjárhagslega óvissu sem fælist í að breyta núverandi húsi. Ef framkvæmdir eru vel undirbúnar, sem borgar sig alltaf að gera óháð sérstakri áhættu eða óvissu, ætti þessi áhætta og óvissa, hvort sem er framkvæmdarlega eða fjárhagslega, að vera í lámarki. Það eru sérfræðingar sem sérhæfa sig í þessum þáttum eins og við öll vitum. Það tímabundna úrlausnarefni ætti því ekki að vera fyrirstaða ef samfélagið endar með betra mannvirki þegar upp er staðið, mannvirki sem á hugsanlega eftir að þjóna íbúum sveitarfélagsins næstu 50-100 árin.

Framtíðin

Þó að byggt sé við núverandi íþróttahús tel ég samt sem áður að verið sé að horfa langt til framtíðar í tengslum við íþróttamannvirki hér á Höfn enda værum við að þrefalda stærð íþróttasalanna okkar. Sérstaklega þegar horft er til fólksfjölgunar undanfarinna ára og spá þar um ásamt þróun aldursdreifingar íbúa á svæðinu. Síðan er einnig gert ráð fyrir í skipulagsáætlunum að Heppuskóli geti stækkað og þróast í átt að gamla malarvellinum svokallaða. Viðbygging við núverandi íþróttahús á því ekki að standa í vegi fyrir því.

Hér hef ég farið yfir helstu rök mín fyrir því að byggt sé við núverandi íþróttahús. Sitt sýnist hverjum varðandi þetta mál og mörg ólík sjónarhorn sem þarf að skoða, velta upp og taka tillit til. Mitt mat er að viðbygging þjóni best heildarhagsmunum sveitarfélagsins til framtíðar og sé jafnframt hagkvæm bæði í byggingu og rekstri til lengri tíma.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.